Skip to main content
Umhyggja sendi erindi til landlæknis nýlega varðandi bólusetningar fyrir foreldra langveikra barna.
Sæl öll
Okkur barst eftirfarandi svar frá Landlæknisembættinu viðvíkjandi áskoruninni sem við sendum í febrúar og ítrekuðum nú fyrir mánaðarmótin varðandi bólusetningu foreldra langveikra barna:
Sæl,
Þessi hópur er almennt í forgangi 7 með börnum sínum í okkar huga, og í a.m.k. einhverjum tilvikum einnig systkini á sama heimili sem náð hafa 16 ára aldri og geta því fengið bólusetningu sjálf. Við þurfum gögn sem embætti landlæknis hefur alla jafna ekki aðgang að til að finna þessa eintaklinga og erum að bíða eftir heimild frá Þjóðskrá og Persónuvernd til að fá og nýta þessi gögn með gögnum embættisins til að geta boðað þá sem boða skal í þessum hópi.
Athugið að við miðum við að barn sé með sjúkdóm sem eykur hættu á alvarlegri COVID sýkingu og því þörf á að bólusetja heimilisfólk til að draga úr hættu á að smit berist á heimilið því barnið fær ekki bólusetningu sjálft. 16-17 ára börn munu fá bólusetningu sjálf en fjölskyldumeðlimir einstaklinga með alvarlega ónæmisbælingu sem hætt er við að svari síður bólusetningu munu þá samt líka fá boð.
Þar sem í sumum tilvikum eru ekki til staðar afmarkaðar greiningar sem við vitum að auka hættu á alvarlegri COVID sýkingu (s.s. hjartabilun eða Downs heilkenni) en samt einstaklingur sem er talinn af læknum sínum vera í hættu ef smitast af COVID, þá höfum við líka undir höndum lista frá Barnaspítala Hringsins sem byggir á gögnum frá þeim og frá Greiningarstöðinni.
Athugið að bólusetning hóps 7 er ekki almennt farin af stað en er í startholum og sá hópur er tugir þúsunda einstaklinga, svo það mun taka einhverjar vikur að bólusetja allan hópinn. Þetta er ekki stór undirhópur, svo bólusetning þessara aðila ætti ekki að taka langan tíma þegar allar heimildir og gögn liggja fyrir.
Þegar endanlega er staðfest að við getum stofnað lista yfir þessa aðila eins og við vonumst til þá verður það tilkynnt og útskýrt nánar á netinu hjá okkur.
Með kveðju,
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir
Barnasmitsjúkdómalæknir
Verkefnastjóri bólusetninga
Sóttvarnasviði
Embætti landlæknis
Katrínartúni 2, 6. hæð, 105 Reykjavík
Þótt gott sé til þess að vita að fjölskyldur barna sem eru sérstaklega útsett fyrir Covid19 megi eiga von á bólusetningu á næstu vikum, þá breytir það ekki því að áhyggjur okkar allra hljóta að snúa að stöðu foreldra barna með miklar stuðningsþarfir, því veikist foreldrarnir þá er staðan alvarleg þegar kemur að úrræðum til umönnunar. Ég er búin að senda svar á Kamillu með cc á Þórólf og Óskar þar sem þessar áhyggjur eru ítrekaðar og áfram gerð krafa um að hópur barna með miklar stuðningsþarfir færist í forgang á þessum forsendum.