Farið var frá Hátúni 10b og hittist fólk þar kl. 10:00 að morgni. Eins og venjulega var farið með rútu frá Guðmundi Jónassyni. Í þetta sinn var ferðinni heitið til Innri-Njarðvíkur og þar bættist leiðsögumaðurinn – hin frábæra Helga Ingimundardóttir í hópinn.
Ekið var um Innri-Njarðvík, þar sáum við sjö metra hátt sverð, ókum fram hjá Stekkjarkoti sem er endurgerður torfbær (og er merkilegur staður fyrir það að þar voru tveir af menntuðustu mönnum þjóðarinnar fæddir og uppaldir þeir Jón Þorkelsson og Sveinbjörn Egilsson), þaðan lá leiðin í Reykjanesbæ og þar heimsóttum við “Skessuna í hellinum”, börnum og mörgum fullorðnum til mikillar ánægju.
Næst lá leiðin til Sandgerðis en þar var ferðafólkinu boðið í mat og beið okkar veglegt hádegisverðarhlaðborð í Vitanum. Þar áttum við góða stund við borðhald og spjall. Eftir þessa frábæru máltíð var farið í Fræðasetrið sem er ótrúlegt safn og margt fróðlegt að sjá.
Næst var haldið sem leið lá eftir nýjum vegi til Hafna og stoppað við Brúna milli heimsálfa – þar sem eru flekaskil Evrópu og Ameríku og mörgum þykir furðulegt að geta verið með annan fótinn í Evrópu og hinn í Ameríku.
Ekið var að Reykjanesvita og stoppað við Gunnuhver, farið niður á Vaðlahnjúka en þaðan er frábært útsýni til Eldeyjar.
Áfram var ekið um Reykjanesið og skoðað þetta landslag sem menn undrast hvað útlendingar laðast að, en þeim finnst þeir vera komnir á stað sem er eins og landslagið sem þeir hugsa sér á tunglinu.
Hringferðin um Reykjanesið endaði svo í Grindavík, en á því svæði skoðuðum við Sólarvé – sérkennilega grjóthleðslu.
Alla þessa ferð var hún Helga, okkar frábæri fararstjóri með leiðsögn og fyrirlestur um þetta svæði, en hún er hafsjór af fróðleik og gerði þessa ferð sérstaklega vel heppnaða og ánægjulega.