Heiðrún Kristín Guðvarðardóttir mezzósópran efnir til söngtónleika í Fella- og Hólakirkju laugardaginn 5. október. Meðleikarar eru Julian M. Hewlett á píanó og orgel, Símon H. Ívarsson á gítar og Victoria Tarevskaia á selló. Einnig syngur Kristín Ragnhildur Sigurðardóttir sópran dúetta með Heiðrúnu.
Tilefni tónleikahaldsins er að tíu ár eru liðin frá því Heiðrún gekkst undir heilaskurðaðgerð í Bandaríkjunum, og losnaði þar með við flogaveiki sem hún hafði þá glímt við í meira en 20 ár. Aðgerðin markaði tímamót í lífi hennar og breytti í raun öllu.
Tónleikarnir eru tileinkaðir læknunum á Mayo Clinic í Rochester í Minnesotafylki, einkum dr. Gregory Cascino sem lengi hefur verið í samstarfi við íslenska lækna um aðgerðir vegna flogaveiki. Hann hefur síðan 1996 tekið á móti tugum flogaveikra Íslendinga, sem flestir hafa fengið góðan bata og losnað að miklu eða öllu leyti við flogaveikina.
Tónleikarnir eru einnig tileinkaðir samtökunum Lauf, félagi flogaveikra á Íslandi, sem stofnuð voru árið 1984 og hafa reynst mörgum flogaveikum Íslendingum mikilvæg stoð.
Á tónleikunum verða fluttar nokkrar aríur frá fyrri öldum, meðal annars úr óperunum Dido og Aenas eftir Henry Purcell og Orfeus og Evridís eftir Gluck. Einnig syngur Heiðrún nokkur alþekkt íslensk sönglög og hugljúf dægurlög frá Bandaríkjunum.
Þá flytur hún ásamt Símoni H. Ívarssyni gítarleikara nokkur lög eftir Gunnar Reyni Sveinsson í útsetningum Símonar. Eitt þessara laga Gunnars Reynis heitins verður, eftir því sem best er vitað, frumflutt á þessum tónleikum.
Yfirskrift tónleikanna, Hugur vor flýgur, er fengin úr texta samnefnds lags eftir Gunnar Reyni, og lýsir kannski því flugi sem fólk kemst á þegar hið „slæma og ljóta og leiða“ er að baki.