Þann 21. nóv s.l. héldum við hjá LAUF fræðslufund með nokkuð nýju sniði. Vaninn hefur verið að fá fagfólk utan að til að flytja okkur fyrirlestur um hin ýmsu málefni, sem er auðvitað mjög gott. En nú ákváðum við að prófa eitthvað nýtt. Yfirskrift fundarins var „Daglegt líf með flogaveiki“. Þrjár frábærar konur úr félaginu okkar tóku að sér að hefja fundinn með því að segja stuttlega frá sjálfum sér og sinni glímu við flogaveiki og hvernig þær hafa náð að aðlaga tilveru sína að þessum fylgifiski. Eftir að þær luku máli sínu tókum við stutt veitingahlé og síðan spunnust fjörugar og fróðlegar umræður og fólk setti fram fyrirspurnir og svaraði hvert öðru. Þarna nutum við reynslu hvers annars og stuðnings af því að fá staðfest að ekkert okkar er eitt með sín viðfangsefni. Almenn ánægja var með þetta fyrirkomulag og er alveg öruggt að við munum nota þessa aðferð aftur.