Eins og margir hafa orðið varir við hafa undanfarna daga birst fréttir af væntanlegu nýju fyrirkomulagi við greiðsluþátttöku hins opinbera í lyfjakostnaði.
Þessar hugmyndir hafa verið lengi í vinnslu og hafa fulltrúar sjúklinga tekið þátt í ferlinu mestan þann tíma. Margt hefur á leiðinni breyst til betri vegar fyrir okkar fólk miðað við upphaflegu hugmyndirnar.
Tilgangur breytinganna er að auka jafnræði milli einstaklinga og milli sjúklingahópa. Núna er kerfið þannig að sumir borga ekkert en aðrir borga alltaf fullt verð og í raun er ekkert hámark í gildi um hve mikið fólk getur lent í að borga fyrir lyf. Nýja kerfið byggir á þrepaskiptingu þannig að hver einstaklingur greiðir hlutfallslega minna eftir því sem hann kaupir meira af lyfjum.
Þeir hópar sem munu koma illa út úr þessum breytingum eru þeir sem nota dýr lyf sem hafa verið að mestu eða öllu leyti niðurgreidd, t.d. flogaveikilyf og insúlín, en nota ENGIN önnur lyf til viðbótar. Hjá þessu fólki verður um að ræða ansi stórt stökk í greiðslum. Öll lyf sem fólk kaupir gegn lyfseðli munu fara í sama pottinn.
Við hjá LAUF munum á næstu dögum eiga fund með fulltrúum Sjúkratrygginga og í framhaldi koma okkar athugasemdum á framfæri með formlegum hætti til SÍ og Velferðarráðuneytis.
Hér að neðan er slóð á síðu Sjúkratrygginga þar sem breytingarnar eru skýrðar. Vert er að ítreka að um DRÖG og TiLLÖGUR er að ræða, ekki endanlega útgáfu.
http://www.sjukra.is/lyf-og-hjalpartaeki/lyf/nytt-greidsluthatttokukerfi-vegna-lyfja-i-vaentanlegt/