Skip to main content

Sæl öll

Nú í vor ætla fjallagarparnir og ævintýramennirnir Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson að ganga á Everest, hæsta fjall í heimi, og er stefnan að leggja af stað í mars og reyna að toppa í lok maí. Það ánægjulega við þetta allt saman er að þeir hafa hugsað sér að nota þennan leiðangur til að vekja athygli á Umhyggju og málefnum langveikra barna og safna um leið áheitum/styrkjum til að styðja við starfið sem er í örum vexti þessa dagana með aukinni þjónustu. Við erum ótrúlega glöð og hlökkum mikið til þessa samstarfs.

Með þeim í för verður Garpur Ingason Elísabetarson, myndatökumaður, og mun hann fylgja þeim eftir bæði í undirbúningnum og alla leið upp í grunnbúðir Everest. Í kvöld mun verkefnið vera kynnt með innslagi í Íslandi í dag og munu þeir félagar í framhaldinu pósta reglulega í gegnum Instagramsíðu Umhyggju, @umhyggja.is, og á facebooksíðunni Með Umhyggju á Everest https://www.facebook.com/Umhyggja.is bæði á meðan á undirbúningi stendur og eins í ferðinni sjálfri. Þeir fá til liðs við sig ýmsa þekkta einstaklinga t.d. til að taka með sér æfingar o.s.frv.

Þá Heimi og Sigga langar mikið að komast í tengsl við þau börn og fjölskyldur sem eru í okkar félögum og hafa hug á að taka með sér á Everest drauma langveikra barna og systkina þeirra, alla leið upp á toppinn. Þannig vonast þeir til að krakkarnir eða fjölskyldur þeirra sendi þeim drauma sem þeir geta svo lesið upp á leiðinni og jafnvel póstað (nafnlaust) til að blása sér byr í brjóst þegar á móti blæs á leiðinni. Það geta verið stórir sem smáir draumar, markmið o.fl. Að sama skapi væru þeir mjög til í að tengjast þeim sem hafa áhuga t.d. í gegnum Zoomfundi, hafa “spurt og svarað” spjallstund með fjölskyldum, segja frá leiðangrinum þegar komið er heim o.s.frv. Því biðlum við til ykkar að hvetja ykkar fólk til að taka þátt.

Við munum standa fyrir netuppákomu nú um mánðarmótin þar sem einhver flottur skemmtikraftur mun troða upp og Everestfararnir munu kynna sig. Við vonum að sem flestir vilji taka þátt og sendum ykkur nánari tímasetningu og link þegar þar að kemur. Einnig munum við auglýsa þetta á vefsíðu, facebooksíðu Umhyggju og facebooksíðunni Með Umhyggju á Everest.

Þeir krakkar, systkini eða fjölskyldur sem vilja senda draumana sína upp á hæsta tind heims geta sent þeim félögum í gegnum þetta form https://www.umhyggja.is/is/draumur-a-everest