Skip to main content

Ökuréttindi

Akstur er mikilvæg færni sem flestir vilja tileinka sér. Við útgáfu ökuskírteinis eru margir þættir sem hafa verður í huga til að tryggja almennt öryggi.

Lögin

Öllum sem sækja um ökuskírteini er gert að upplýsa um það hvort þeir séu með flogaveiki eða ekki. Ef svarið er játandi þarf greinargerð læknis að fylgja með umsókninni. Matið sem gildir um leyfisveitingu hér á landi er eingöngu læknisfræðilegt. Ef læknir telur engar hömlur á því að viðkomandi fái réttindi til að aka vélknúnum ökutækjum þá er leyfið veitt. Mat læknisins byggir á því að viðkomandi hafi t.d. verið án floga í að minnsta kosti eitt ár, flogaköstin séu bundin við ákveðinn tíma s.s. eingöngu á næturnar eða viðkomandi fái alltaf fyrirboða. Ef þú ert þegar með ökuskírteini og byrjar að fá flog ættir þú að hætta öllum akstri. Það er óábyrgt, ólöglegt og jafnvel hættulegt þér og öðrum að halda áfram að aka án þess að hafa rætt það við lækni. Fólki með flogaveiki var lengi bannað að aka vélknúnum ökutækjum hér á landi og víða erlendis gildir það bann enn.

Bifhjól

Ökuskírteini þarf til að stjórna öllum vélknúnum ökutækjum. Sömu kröfur eru gerðar til ökumanna bifhjóla og ökumanna bifreiða.

Minnisatriði fyrir ökumenn með flogaveiki

Allir ökumenn geta orðið þreyttir og þreytan ásamt lyfjatöku vegna floga getur komið niður á aksturshæfni. Ökumaður með flogaveiki er oft viðkvæmari en aðrir fyrir þessum þáttum og þarf að sýna sérstaka gætni. Gott er að hafa eftirfarandi varúðarráðstafanir í huga:

  • Forðastu að aka margar klukkustundir í senn þegar þú ert þreyttur. Ef ekki verður komist hjá því, reyndu að taka pásur með vissu millibili og enn betra er að deila akstrinum með einhverjum.
  • Aktu ekki langar vegalengdir án svefns og matar.
  • Taktu allaf lyfin samkvæmt fyrirmælum læknis
  • Forðastu að aka ef lyfjataka hefur gleymst.
  • Hættu öllum akstri meðan verið er að breyta lyfjagjöf, draga úr henni eða stöðva, þar til læknir þinn telur að óhætt sé að hefja akstur á ný.
  • Hættu akstri ef breytingar verða á flogum þínum.
  • Forðastu að aka ef þú finnur fyrir aukaverkunum lyfja.
  • Drekktu aldrei áfengi áður en þú sest undir stýri. Jafnvel örlítið áfengismagn getur haft áhrif á virkni lyfja og aksturshæfni.
  • Ef þú ert viðkvæmur fyrir birtu, og áhrifum ljóss og skugga, geta góð sólgleraugu dregið úr þessum áhrifum.

Tryggingar

Láttu tryggingafélag þitt vita af flogaveikinni áður en þú gengur frá málum við það, svo ekki komi til skaðabótakrafna á þeim forsendum að það telji sig hafa verið blekkt. Leitaðu eftir ráðgjöf í þessum efnum.

Akstur erlendis

Breytilegt er hvaða lög og reglur gilda og sums staðar er fólki með flogaveiki bannað að aka vélknúnum ökutækjum. Hægt er að leita sér upplýsinga um þessi mál hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda.

Höfuðmáli skiptir að tryggja öryggi á vegum úti. Flogaveiki og flogaveikilyf eru aðeins tveir af hinum fjölmörgu þáttum sem geta haft áhrif á aksturshæfni fólks. Niðurstöður rannsókna gefa til kynna að þeir sem eru með flogaveiki og fá ökuréttindi samkvæmt þeim leyfisveitingum sem gilda í hverju landi valda almennt hvorki sjálfum sér né öðrum meiri hættu í umferðinni en aðrir ökumenn.