Skip to main content

Um tvíþætta aðstoð getur verið að ræða:
a) Umönnunarkort til lækkunar læknis- og lyfjakostnaðar
b) Mánaðarlegar umönnunargreiðslur
Aðstoðin er alltaf ákveðin til tiltekins tíma, að hámarki til fimm ára. Hægt er að meta greiðslur allt að tvö ár aftur í tímann, að uppfylltum öllum skilyrðum, enda hafi greining farið fram fyrir þann tíma og vandi barnsins leitt til kostnaðar og sérstakrar umönnunar. Ekki þarf að greiða fyrir lyf sem börn með flogaveiki þurfa að taka vegna flogaveikinnar.

Framfærendur þurfa að kynna sér ýmsar reglur sem kveða á um tiltekin atriði s.s. læknisþjónustu og lyfjakostnað, sjúkra-, iðju- og talþjálfun, afsláttarkort, endurgreiðslur vegna umfangsmikils læknis-, lyfja- og þjálfunarkostnaðar, hjálpartæki, næringu, tannlæknakostnað, styrki til bifreiðakaupa hreyfihamlaðra, niðurfellingu bifreiðagjalds, framlenginu fæðingarorlofs vegna alvarlegra veikinda barns eða móður, ferðakostnað, greiðslu fyrir hluta dvalarkostnaðar foreldris ef barn er innlagt á sjúkrahús, heimild til að framlengja umönnunargreiðslur í allt að 6 mánuði eftir andlát barns þar sem foreldrar hafa notið umönnunargreiðslna.

Umönnunarkort veitir foreldrum afslátt vegna kaupa á lyfjum fyrir börn. Börn handhafa umönnunarkorta fá einnig frían aðgang að sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu og Fjölskyldu- og húsdýragarði Reykjavíkur. Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu útbýr sundkortin fyrir Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur og hægt er að nálgast þau á skrifstofu Sjálfsbjargar að Hátúni 12 gegn framvísun umönnunarkorts. Greiða þarf 1.200 kr. vegna barns sem er synt og getur klætt sig sjálft. Þurfi barn á aðstoðarmanni að halda kostar kortið 2.000 kr. en þá fær foreldri eða aðstoðarmaður barnsins einnig frían aðgang að sundlaugum eða fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Sundkort þessi gilda út almanaksárið.
Einnig skal bent á að foreldrar barna sem njóta umönnunargreiðslna eiga rétt á niðurfellingu bifreiðagjalda. Foreldrar og Tryggingastofnun fylla eyðublaðið út og foreldrar senda það svo undirritað til Ríkisskattstjóra.

Þið getið fengið frekari upplýsingar hjá félagsráðgjafa, hvort sem er þann sem annast barnið á barnadeild Landspítalans, hjá Tryggingastofnun ríkisins eða félagsráðgjafa LAUF. Einnig er hægt að lesa sér til á vef Tryggingastofnuar ríkisins, www.tr.is þar er einnig að finna ýmis eyðublöð sem fylla þar út ef fólk ætlar að senda inn umsókn.