Við vekjum athygli ykkar á þessu spennandi upplifunarverki ætlað skynsegin og fjölfötluðum börnum frá 1-4 ára í tengslum við Listahátíð í Reykjavík.
UPPLIFUNARVERK FYRIR SKYNSEGIN OG FJÖLFÖTLUÐ BÖRN FRÁ 1- 4 ÁRA
Listahátíð í Reykjavík og List fyrir alla með stuðningi frá Barnamenningarsjóði
bjóða skynsegin/taugsegin og fjölfötluðum börnum á aldrinum eins til fjögurra ára ásamt fullorðna fólkinu þeirra á upplifunarverkið dAzzleMAZE.
Sýningin fer fram laugardaginn 18. júní kl. 10:00-13:00 í Tjarnarbíó.
Bókið ykkur boðsmiða hér.
Í dAzzleMAZE, sem er í senn dansverk og innsetning, fögnum við veru okkar í heiminum og göngum inn í rými þar sem við tökum glöð á móti því óþekkta. Hér hvílir tíminn í sjálfum sér og dýpkar. Verkið býður upp á fjölþætta skynjunarupplifun og hvatt er til forvitni, könnunar, slökunar og íhugunar. Í þessu rými er engin rétt eða röng hegðun og áhorfendum býðst að njóta uppákomunnar á eigin forsendum.
Gestir mega koma inn í rýmið þegar þeir eru tilbúnir, fara út og koma aftur inn eins og hentar. Til þess að auka á sameiginlega upplifun er ungu gestunum boðið að velja sér og klæðast búningum í anddyri sem kallast á við búninga dansaranna.
Danshöfundurinn Dalija Acin Thelander hefur sérhæft sig í að gera sýningar fyrir ungabörn og nú á síðari árum einnig fyrir börn af öllu skynrófinu. Allar sýningar hennar byggja á mikilli rannsóknavinnu þar sem áhersla er lögð á að mæta hverju barni þar sem það er statt tilfinningalega og í þroska.