Meðferð
Flogaveiki er í mörgum tilvikum meðhöndluð með lyfjum því flogin hafa löngum verið talin skaðleg heilanum. Hjá sumum virka lyfin svo vel að á meðan þau eru tekin fær fólk ekki flog. Í slíkum tilvikum segja læknar að stjórn sé á flogunum. Flogaveikin telst ekki vera læknuð þar sem lyfin lækna hana ekki. Heldur hafa þau einhvers konar róandi áhrif á þessar ofurnæmu taugafrumur heilans. Því miður breyta þessi lyf ekki eðli frumanna til frambúðar. Ef lyfjatöku er hætt eða lyf eru tekin óreglulega fara frumurnar aftur í sitt fyrra horf. Mikilvægt er að lyfin séu alltaf tekin þó floganna hafi ekki orðið vart í langann tíma. Ef lyfjaskammtur gleymist er líklegt að læknirinn ráðleggi að taka þann skammt með þeim næsta en allt slíkt er nauðsynlegt að ræða við læknir. Stundum gerist það að flog byrja aftur eftir langt hlé. Það þýðir ekki alltaf að flogaveikin sé að versna heldur getur verið að lyfjaskammturinn henti ekki lengur og því þurfi að breyta honum. Síðustu árin hafa gríðalegar framfarið orðið í læknavísindum og það hefur m.a. orðið til þess að ákveðin hópur fólks með flogveiki hefur fengið bata eftir að hafa farið í skurðaðgerðir.