Fyrsta hjálp við flogum
Venjulegt krampaflog hjá einstaklingi með flogaveiki er ekki neyðarástand jafnvel þó að það líti út fyrir að vera það. Flogið hættir af sjálfu sér eftir nokkrar mínútur án eftirkasta. Flestir geta haldið áfram þar sem frá var horfið eftir nokkra hvíld og þurfa litla eða enga aðstoð við að komast leiðar sinnar. Ýmsir sjúkdómar aðrir en flogaveiki geta einnig haft í för með sér flog. Má þar nefna; sykursýki, sótthita, eitrun, sólsting, heilahimnubólgu, blóðsykursfall og höfuðáverka.
Þó eru til einstaklingar sem þurfa á sérstakri læknisfræðilegri meðhöndlun að halda vegna alvarleika flogakasta.
Leiðbeiningarnar um hvernig bregðast á við er hægt að hafa til hliðsjónar þegar meta þarf hvenær og hvort þörf er á læknis aðstoð.
Hvernig á að bregðast við?
- Haldið ró ykkar
- Losið um þröng föt
- Reynið að fyrirbyggja meiðsl
- Ekki setja neitt upp í munn
- Hlúið að viðkomandi
- Verið til staðar þar til fullri meðvitund er náð
Það er ekki þörf á að hringja í sjúkrabíl:
- Ef hægt er að sjá (t.d. á SOS-Medic Alert- eða öðrum merkjum eða skilríkjum sem geta sagt til um sjúkdóm viðkomandi) að hér sé um flogaveiki að ræða
- Ef floginu lýkur innan 5 mínútna
- Ef engin merki eru um meiðsl, líkamlegar þjáningar eða þungun
Hringja skal á sjúkrabíl:
- Ef flogið á sér stað í vatni
- Ef engin leið er að sjá að hér sé um flogaveiki að ræða (merki eða skilríki)
- Ef um barnshafandi konu, slasaðan eða sykursjúkan einstakling er að ræða
- Ef eitt einstakt flog varir lengur en 5 mín.
- Ef einstaklingur í ráðvilluflogi er ekki komin til meðvitundar eftir 20 mínútur.
- Ef annað flog hefst stuttu eftir að fyrra flogið hættir
- Ef einstaklingurinn kemst ekki til meðvitundar t.d. eftir að kippirnir eru hættir
Hafðu í huga að skilningur, kunnátta og virðing er besta hjálpin því það er ekkert þægilegt að fá flog.
Sérstakar aðstæður
Krampaflog í vatni
Þegar aðstoða á fólk sem fær krampaflog í vatni gilda sömu reglur og þegar bjarga á manni frá drukknun. Mjög erfitt er að greina flog í vatni og oft er því ekki vitað að um slíkt er að ræða fyrr en að er komið. Ráðlagt er að fá aðstoð því krampaflogið gerir björgunarstarfið erfitt. Nauðsynlegt er að halda fólki þannig í vatninu að andlit og höfuð þess séu fyrir ofan yfirborð vatnsins. Það þarf að koma viðkomandi úr vatninu eins fljótt og mögulegt er. Þá er ástandið kannað, þ.e. hvort kippirnir eða kramparnir séu hættir og hvort öndun er eðlileg (oft stöðvast öndun í krampaflogi en hefst þó venjulega strax og því lýkur). Ef engin öndun er merkjanleg þegar flog er yfirstaðið, skal nota blástursaðferð eins og í öðrum björgunartilfellum. Öllum sem fá flog í vatni þarf að koma undir læknishendur sem fyrst til að kanna hvort vatn hafi komist í lungu.
Flog í flugvél
Ef vélin er ekki fullbókuð og hægt er að fjarlægja sætisarma, er ráðlagt að biðja farþegana sem situr við hlið þess sem fær krampaflog að færa sig í önnur sæti. Þá getur viðkomandi legið á hlið þvert yfir tvö eða fleiri sæti á meðan flogið varir. Þegar hann kemst til meðvitundar er hægt að aðstoða hann við að koma sér þægilega fyrir í einu sæti. Ef ekki er hægt að rýma sæti skal leggja sætið eins langt aftur og hægt er. Þegar flogið er yfirstaðið er hægt að snúa honum gætilega í sætinu þannig að hann halli lítilega út á hlið. Setjið púða og teppi við höfuð hans til að fyrirbyggja að hann reki sig utan í harða hluti. Gætið þess að viðkomandi sitji þannig að hann geti andað óhindrað.
Athugið að það sama gildir um önnur samgöngutæki