Við byrjuðum á að fara í Húsdýragarðinn í Slakka, þar voru mörg dýr og fuglar sem hægt var að klappa og gæla við bæði úti og inni til dæmis voru kanínur af ýmsum stærðum, sem mörg börn voru hugfanginn af, og jafnvel örlaði á því að ýmsir fullorðnir finndu barnið í sér þegar við fórum að huga að dýrunum. Einnig settist fólk niður og keypti sér eitthvað gott að borða og drekka og undu sér margir vel. Þarna var líka aðstaða fyrir golf og voru teknar æfingar og sýndu ýmsir tilþrif þar allt niður í eins árs börn.
Síðan var farið að Gullfossi og hann skoðaður af útsýnispalli og/eða farið niður að honum og dáðst að því mikla náttúruundri sem hann er. Þarna var líka gefinn góður tími, þannig að hver og einn gat skoðað Gullfoss og umhverfi hans eins og honum hentaði.
Því næst var tekin stefnan á Geysi í Haukadal og fórum við um hverasvæðið og skoðuðum ýmislegt markvert, Strokkur bullaði og sauð og þvældi vatninu upp og niður þangað til hann kom með háa gosstróka, aftur og aftur öllum til ánægju, en sérstaklega börnunum, og var gaman að útskýra fyrir þeim af hverju hverinn Strokkur héti þessu nafni, en það væri af því að þegar verið var að búa til smjör í “gamla daga” var rjóminn settur í bullustrokk (sem er uppmjótt ílát úr tré eða málmi) og strokkaður þ.e. skakað og þvælt upp og niður þar til hann varð að smjöri.
Þegar við höfðum horft nægju okkar á Strokk, héldum við að Hótel Geysi. Þar beið eftir okkur málsverður sem við vorum búin að panta og sátum við þar í fallegum sal og nutum þess að borða og drekka og spjalla saman í rólegheitum í yndislegu umhverfi. Síðan þegar allir voru orðnir saddir og búnir að njóta þess sem boðið var upp á var haldið heim á leið.
Við fórum Lyngdalsheiðina heim og nutum þess sem fyrir augu bar á leiðinni, komum svo aftur að Hátúni 10b klukkan hálf átta um kvöldið og var fólk almennt ánægt með ferðina og þótti hún hafa tekist vel.
Góðir ferðafélagar þakka ykkur fyrir samveruna og að gera þessa ferð svona ánægjulega.
Margrét Njálsdóttir