Hefur verið duglegur að skokka um götur Akureyrar og nágrenni á undanförnum árum. Oft hefur hann tekið þátt í tíu kílómetra hlaupum og þrisvar í hálfu maraþoni en nú ætlar hann að glíma við næsta áfanga á hlaupabrautinni og hlaupa heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis á laugardaginn kemur. Hann ætlar að hlaupa í þágu LAUFS – Landssamtaka áhugafólks um flogaveiki og safna áheitum fyrir þau. Þegar þetta er skrifað (að morgni þriðjudags 14. ágúst) hafa fimm skráð sig í áheitahlaup í þágu LAUFS: tveir í heilt maraþon, einn í hálft maraþon og tveir í 10 km.
„Ég byrjaði að skokka fyrir átta eða níu árum. Til að byrja með var ég í skokkhópi á Bjargi, sem Karl Frímannsson, nú skólastjóri Hrafnagilsskóla, þjálfaði. Strax þá tókst ég á við þá áskorun að hlaupa tíu kílómetra,“ segir Elías. Þar með var teningunum kastað, hlaupabakterían hafði náð tökum á honum.
„Í fyrra ætlaði ég að hlaupa hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoni en veiktist daginn fyrir hlaupið og varð að hætta við allt saman. Ætli taugarnar hafi ekki gefið sig!“ segir Elías og hlær dátt. „Þá ákvað ég að 2007 myndi ég hlaupa heilt maraþon í Reykjavík og að því hef ég sem sagt stefnt. Ég hef fylgt ýmsum æfingaáætlunum, til dæmis hef ég mikið gagn af hlaupadagbók Gunnars Páls Jóakimssonar. Ég hef líka nýtt mér fróðleik Hal Higdons á vefnum, Bandaríkjamanns sem skrifar bækur um hlaup. Tvær þeirra hef ég lesið. Í aðdraganda Reykjavíkurmaraþonsins fylgdi ég átján vikna æfingaáætlun og hljóp að jafnaði þrisvar í viku, frá 8 og upp í 20-30 km.“
Elías segist ekki áður hafa hlaupið heilt maraþon, 42 km, en láti reyna á það í fyrsta sinn um helgina. „Takmarkið er að verða undir fjórum klukkustundum en ég neita því ekki að sætt væri að slá tíma Vals Hilmarssonar, vinnufélaga míns, sem hljóp þessa vegalengd í fyrsta skipti í Mývatnsmaraþoninu í júní á tímanum 3:37 klst. Valur fór þar reyndar alveg með sig og hefur síðan þá vart getað hreyft sig!“ segir Elías og vel má greina stríðnistón í röddinni.
Frá Atla Rúnari Halldórssyni ráðgjafa Athygli