Við viljum gjarnan upplýsa ykkur um nýtt áhugavert verkefni sem stofnað er til af frumkvæði alþjóðasamtaka flogaveikra og lyfjafyrirtækisins UCB Pharma. Verkefnið kallast Freedom in Mind eða frelsi í hugsun. Um er að ræða verkefni þar sem kallað er eftir því að fólk með flogaveiki, hvar sem er í heiminum, tjái hvað frelsi frá flogum þýðir fyrir það og miðli til annarra upplýsingum um langanir sína, vonir og drauma varðandi framtíðina.
Hvað felst í þessu?
Fólki með flogaveiki býðst að senda inn listaverk í hvaða formi sem er – svo sem myndir sem eru málaðar, teikningar, ljósmyndir, tölvugrafík, ljóð, hljóðasnældur, myndbönd o.s.frv. Valið er úr innsendu efni og það verður síðan notað á sýningum sem haldnar verða víðsvegar um heim í tengslum við alþjóða læknaráðstefnur á næstu tveim árum. Á þann hátt er fólki með flogaveiki ásamt læknum hvatt til að taka höndum saman til að vinna í sameiningu að því að leita leiða til að eiga von um að geta öðlast flogalaust líf.
Á skrifstofu Laufs er hægt að fá þátttökuseðil, þar þarf að koma fram heiti á verki, lýsing á því og útskýringar á því af hverju þetta verk varð fyrir valinu og á hvaða hátt það endurspeglar hvað frelsi frá flogum þýðir fyrir þig persónulega og síðan að skrifa hver ósk þín yrði ef þú ættir eina ósk varðandi framtíðina. Við hvetjum fólk með flogaveiki til að bretta upp ermarnar og taka þátt í þessu. Þetta er áhugavert verkefni og góð leið sem við getum sameinast í að framkvæma og þannig reynt að koma upplýsingum um flogaveiki á framfæri sem leitt geta til aukins skilnings meðal almennings. Allt sem þú þarft að gera er að finna leið til að tjá tilfinningar þínar þannig að þær verði öðrum sýnilegar, fylla út þátttökuseðil og senda til alþjóðasamtakanna. Við hjá Laufi hjálpum þér eins og kostur er.