Leggðu góðu málefni lið
Eitt slíkt gleðilegt tilefni var þegar Landsbankinn opnaði þjónustuna “Leggðu góðu málefni lið” á síðasta ári. Um er að ræða mikilvæga þjónustu, fyrir hagsmunasamtök, í einkabanka og fyrirtækjabanka Landsbankans. Hægt er að gerast áskrifandi að mánaðarlegum stuðningi eða framkvæma staka greiðslu með mjög einföldum hætti með því að velja styrktarupphæð og fyrir hve langan tíma þú vilt leggja málefni lið. Hver króna skilar sér beint til hagsmunasamtakanna. Menningarsjóður Landsbankans ákvað í byrjun þessa árs að styrkja öll 75 hagsmunasamtökin, sem eru í þjónustunni, um eina milljón hvert. Það var því sannanlega óvænt og kærkomin ánægja fyrir Lauf að hafa tekið þátt í þessarri þjónustu.
Styrkur frá Baugi Group
Á síðast ári fékk Lauf mikilvægan stuðning og styrk frá styrktarsjóði Baugs Group h.f. sem meðal annars nýtist til að uppfæra og viðhalda heimasíðu samtakanna, www.lauf.is. Heimasíður eru í nútíma samfélögum,mikilvægur tengiliður og vettvangur til upplýsingamiðlunnar, en í dag er algengt að fólk noti netið til að leita svara við ýmsum spurningum. Lauf vill því koma á framfæri þökkum til þeirra Baugsmanna fyrir höfðinglegan og ómetanlegan stuðning á undanförnum árum.
GlaxoSmithKline
Eitt þeirra fyrirtækja sem hefur sýnt okkur ómetanlegan stuðning á undanförnum árum er fyrirtækið GlaxoSmithKline, það hefur staðið við bakið á okkur, og kostað útgáfu bæklinga. Nú í janúar eru tveir bæklingar tilbúnir og heitir annar þeirra: Börn með væga flogaveiki og hinn heitir Börn með erfiða flogaveiki. Þar að auki höfum við notið ómetanlegrar vinnu Brynju Kingdon, en hún hefur unnið ötullega með okkur að þessum bæklingi og færum við henni bestu þakkir fyrir.