SÍBS kynnir nýtt verkefni sem fengið hefur heitið Heilsumolar.
Heilsumolar eru örmyndbönd með góðum ráðum um hvað hægt er að gera til að bæta heilsu og líðan og eiga erindi við allan almenning. Að taka ábyrgð á eigin heilsu hefst á því að vita hvað er heilsusamlegt. Hvert myndband svarar því mikilvægri spurningu varðandi svefn,streitu, mataræði eða hreyfingu.
Myndböndin verða birt í áföngum á samfélagsmiðlum veturinn 2022–2023, um það bil tvö í mánuði. Fyrst er sjónum beint að svefni, því næst verður fjallað um streitu í nóvember og desember og mataræði og hreyfingu eftir áramót. Hvert myndband er um 45 sekúndur að lengd og eru þau nú aðgengileg á íslensku, en síðar á ensku og pólsku, á vefnum heilsumolar.is.
Gaman væri ef að sem flestir gætu lagt þessu mikilvæga málefni lið með því að vekja athygli á myndböndunum, með því að upplýsa aðra um verkefnið, læka, deila áfram á Facebook eða setja athugasemdir við færslur með myndböndum eftir því sem við á.
Myndböndin voru unnin í samstarfi við Embætti landlæknis, Reykjavíkurborg, Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar, Heilsuveru, ÍSÍ, Rauða krossinn og Betri svefn, með styrk frá Lýðheilsusjóði. Opið er fyrir samvinnu við fleiri aðila um gerð heilsumola á nýjum eða sértækari áhrifaþáttum heilsu.
Með fyrirfram þökk um góðar undirtektir