Skip to main content

LAUF hefur skipulagt göngunámskeið þar sem við munum hittast og ganga saman og í leiðinni fá fróðleik um náttúru og umhverfi. Námskeiðið verður alla þriðjudaga í maí kl. 17.
Umsjón með námskeiðinu hafa Einar Skúlason og Guðný Ragnarsdóttir hjúkrunarfræðingur.

Fyrsta gangan verður þriðjudaginn 4.maí.

Gengið verður meðfram Rauðavatni og inn á Hólmsheiði. Þessi fyrsta ganga verður eins konar mælikvarði á hópinn, þá sjáum við betur hvernig við getum hagað næstu göngum og áttum okkur á þörfum hópsins. Við reynum að halda jöfnum hraða og stoppa öðru hvoru og jafnvel benda á athyglisverða staði í umhverfinu. Á þessum tíma er gaman að vera vakandi fyrir merkjum um sumarið bæði í gróðri og meðal fuglanna.
Mæting er á bílastæðið framan við prentsmiðju Morgunblaðsins í Hádegismóum. Gott er að vera komin kl. 16:55 svo að við séum tilbúin til brottfarar kl. 17.
Vegalengd:
4-7 km
uppsöfnuð hækkun á bilinu 30-100 m.
Aðstæður og útbúnaður:
Við munum fylgja stígum alla leið og yfirleitt eru þeir í góðu lagi, en á þessum tíma á vorin getur þó alltaf verið bleyta og drulla á stöku stað. Það er hægt að vera í gönguskóm, utanvegahlaupaskóm og hlaupaskóm. Ekki er mælt með því að vera á sléttbotna strigaskóm.
Fylgist með veðurspá á undan og verið klædd samkvæmt því. Gott er að vera með vatnsbrúsa og fá sér sopa öðru hvoru og hnetur, þurrkaða ávexti eða smávegis súkkulaði til að stinga upp í sig ef blóðsykurinn fer að lækka. Göngustafir eru valkvæðir.