Skip to main content

Reykjavík, 25. nóvember 2018

Umhyggja – félag langveikra barna vekur athygli á því, að foreldrar langveikra og fatlaðra barna sem þiggja foreldragreiðslur samkvæmt lögum nr.22/2006 hafa enn ekki fengið vilyrði fyrir desemberuppbót líkt og aðrir hópar sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda frá ríki og sveitarfélögum.

Umhyggja vekur athygli á að markmið laga nr.22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega veikra barna er að tryggja foreldrum fjárhagsaðstoð þegar þeir geta hvorki stundað nám né unnið vegna sérstakrar umönnunar barna sinna. Greiðslurnar eru tekjutengdar í allt að 6 mánuði, en að því loknu er um grunngreiðslur að ræða sem eru sambærilegar við kjör öryrkja. Dæmi eru um að foreldrar séu á grunngreiðslum í fjölda ára vegna þungrar umönnunar barna sinna.

Enn fremur bendir Umhyggja á að þegar hefur verið samþykkt að umsækjendur um alþjóðlega vernd fái desemberuppbót í ár. Dæmi eru um að aldraðir og öryrkjar fái desemberuppbót, t.d. í samræmi við reglugerð nr.490/2017 um eingreiðslur lífeyrisþega, atvinnuleitendur hafa fengið slíka uppbót t.d. í samræmi við reglugerð nr.945/2017 og dæmi eru um að að einstaklingar sem þiggja fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum fái desemberuppbót sbr.reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Þess ber að geta að í fyrra fengu foreldrar á foreldragreiðslum í fyrsta skipti desemberuppbót í kjölfar áskorunar frá Umhyggju til stjórnvalda og fjölmiðlaumfjöllunar þar að lútandi.

Það er mat Umhyggju að foreldrar langveikra og fatlaðra barna sem hvorki geta né mega vinna eða stunda nám vegna umönnunar barna sinna, og þiggja foreldragreiðslur, standi síst betur að vígi en áðurnefndir hópar og eins hefur staða þeirra ekki skánað frá því í fyrra. Vegur þar þungt langvarandi fjarvera af vinnumarkaði og framfærsla annarra barna, auk þess sem Tryggingastofnun túlkar lögin á þann veg að foreldrum sem þiggja áðurnefndar grunngreiðslur sé hvorki heimilt að vinna né stunda nám samhliða þeim. Þá ber að geta þess að frítekjumark grunngreiðslanna er kr.77.688 á mánuði.

Samkvæmt staðtölum Trygginarstofnunar fyrir 2016 (sjá töflu 1.3 á slóðinni https://www.tr.is/tryggingastofnun/tryggingastofnun_i_tolum/stadtolur/toflur-fyrir-arid-2015/) eru u.þ.b. 25 til 38 foreldrar á foreldragreiðslum í desember á ári hverju. Því má reikna með að kostnaður vegna desemberuppbótar til þessa hóps væri um 1,3 til 2,0 milljónir á ári.

Umhyggja skorar því á yfirvöld að greiða foreldrum á foreldragreiðslum desemberuppbót árið 2018 og veita þannig fjölskyldum alvarlega veikra og fatlaðra barna betri tækifæri til að mæta þeim útgjöldum sem hátíðirnar hafa í för með sér. Umhyggja skorar enn fremur á yfirvöld að búa svo um hnúta að desemberuppbót til þessa fámenna en viðkvæma hóps verði héreftir reglan frekar en undantekningin svo ekki þurfi að taka slaginn árlega.

Fyrir hönd stjórnar Umhyggju,

Regína Lilja Magnúsdóttir