Skip to main content

Góðir félagar!

Ég vil minna á 1.maí gönguna og hvetja alla, sem mögulega geta, að taka þátt og sýna stjórnvöldum að við látum ekki kúga okkur lengur.

Skerðingar síðustu ára, hvort heldur sem um er að ræða örorkulífeyri, uppbætur fyrir lyf og lækniskostnað, eða viðmið til að fá félagslegar bætur, þar með taldar húsaleigubætur, hafa ekki verið lagfærðar og ekki einu sinni lögð fram áætlun um hvernig skuli færa til baka það sem af hefur verið skorið, eins og alþjóðlegir mannréttindasáttmálar gera þó ráð fyrir. Á sama tíma hafa alþingismenn fengið sínar skerðingar bættar afturvirkt. Lög sem kváðu á um að lífeyrir almannatrygginga skyldi hækka miðað við verðlag eða almenn laun voru afnumin 1.janúar 2009 og hafa ekki komið til framkvæmda síðan.

Það er sama hvert litið er öryrkjar, fatlaðir og langveikir hafa þurft að greiða fyrir óráðsíu stjórnvalda síðustu áratuga og ekki sjónmáli að þeim verði bættur skaðinn á nokkurn hátt.

Ég hvet alla sem mögulega eiga þess kost að koma í gönguna, sem leggur af stað frá Hlemmi kl.13,30. Við munum hittast á bílaplaninu ofan við Hlemm kl.13,00 og þar getur fólk fengið spjöld með slagorðum eða fána ÖBÍ, auk þess verða tveir borðar til taks sem á stendur: „Ekkert um okkur án Okkar“ og „Eitt samfélag fyrir alla“. Einnig verða barmmerki með ýmsum áletrunum, sem kjörið er að gefa og vekja þannig umræður við fólk.

Tökum með okkur vini og ættingja og gerum okkur gildandi þennan dag (og alla aðra daga!).

EKKERT UM OKKUR ÁN OKKAR!

Með baráttukveðjum

Guðmundur Magnússon

formaður Öryrkjabandalags Íslands